Frétt

Yfirlit yfir magn kælimiðla í notkun á svæði HHK

Heilbrigðisnefnd Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis annast samkvæmt lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir og lögum um matvæli vöktun og eftirlit með fjölmörgum málaflokkum á starfssvæði sem nær til Kópavogs, Garðabæjar og Hafnarfjarðar.
Sumarið 2020 réð heilbrigðiseftirlitið Sunnu Hrund Sverrisdóttur líffræðing í verkefnavinnu. Auk almennra eftirlitsstarfa var henni falið að afla gagna og áætla magn og gerð kælimiðla í umferð á starfssvæði nefndarinnar.
(Hægt er að lesa skýrsluna í heild með því að smella á hlekkinn hér til hliðar)

.

Árið 1999 voru heilbrigðisnefnd Kópavogs og heilbrigðisnefnd Hafnarfjarðar, Garðabæjar og Álftaness sameinaðar. Þessar nefndir, í samvinnu við nærliggjandi nefndir og Hollustuvernd ríkisins fóru á árunum í kring um aldarmótin í mikla úttekt eða rannsóknarvinnu við að kortleggja notkun svonefndra kælimiðla í fyrirtækjum á svæðinu. Margar tegundir kælimiðla sem þá voru í notkun höfðu veruleg ósoneyðandi áhrif ef þau losnuðu út í andrúmsloftið en ástand ósonlagsins, sem verndar jörðina fyrir útfjólubláum geislum sólar, var þá metið í vondu ásigkomulagi. Með þessu verkefni fengu stjórnvöld þokkalega yfirsýn yfir stöðu mála sem hægt var að heimfæra yfir landið.

Talið er að hlutur ósoneyðandi efna í kælimiðlum á Íslandi hafi minnkað verulega frá aldarmótum. Innflutnings- og sölubann á tilteknum efnum, ákvæði reglugerða er setja skorður við eða banna notkun tiltekinna kælimiðla, ásamt breytingum í tækni og á efnum á markaði hafa saman stuðlað að þeirri breytingu.  

Hluti eldri og nýrri kælimiðla teljast til sterkra gróðurhúsalofttegunda með háan hnatthlýnunarmátt (GWP) ef þau sleppa úr tækjunum. Samkvæmt reglugerðum þarf að taka kælimiðla af kælibúnaði þegar þeim er fargað eða þegar skipt er um kælimiðil á kælitækjum og koma til viðurkenndra förgunaraðila. Sá málaflokkur er hjá Umhverfisstofnun.

Sumarið 2020 réð heilbrigðiseftirlitið Sunnu Hrund Sverrisdóttur líffræðing í verkefnavinnu. Auk almennra eftirlitsstarfa var henni falið að afla gagna og áætla magn og gerð kælimiðla í umferð á starfssvæði nefndarinnar. Covid-19 raskaði nokkuð framkvæmd þessarar úttektar. Ætlunin var að tengja þessa gagnasöfnun við mengunar- og umhverfiseftirlit með ákveðnum atvinnugreinum. Vegna ástandsins var hluti eftirlitsins í formi ,,fjar-eftirlits‘‘, þ.e. hringt var í forsvarsmenn eða fyrirspurnir sendar á stærri fyrirtæki í matvælavinnslu og matvæladreifingu. Viðbrögð forsvarsmanna fyrirtækja og þjónustufyrirtækja voru almennt mjög góð og ber að þakka þá samvinnu. Að sjálfsögðu eru kælikerfi miklu víðar að finna í atvinnulífinu en fram kemur í þessari úttekt en það er mat þeirra sem að standa að hún gefi samt þokkalega mynd af þeim hluta sem kom til skoðunar. Þá er ótalið að kælikerfi (ísskápar, frystiskápar o.fl.) eru á öllum heimilum. 

Páll Stefánsson deildarstjóri.